Birkimelur 1

Á Birkimel er áformað að reisa 42 íbúða 4-5 hæða fjölbýlishús.

Þróun á verkinu hefur staðið yfir í þrjú ár og farið í gegnum ítarlegt skipulagsferli Reykjavíkurborgar.

Mannvæn byggð í rótgrónu hverfi

Á Birkimel 1 er áformað að reisa 42 íbúða 4-5 hæða fjölbýlishús. Á lóðinni stendur fyrir bensínstöð en rekstri hennar verður hætt í samræmi við stefnu borgarinnar um að bensínstöðvar víki fyrir íbúabyggð í Reykjavík. 

Þróun á verkinu hefur staðið yfir í tæp þrjú ár og farið í gegnum ítarlegt skipulagsferli Reykjavíkurborgar. Á sama tíma lagði borgin upp í vinnu við þróunaráætlun Háskóla Íslands, í því skyni að móta sameiginlega framtíðarsýn HÍ og borgarinnar á svæðinu. Sú sýn var tekin saman í Þróunaráætlun Háskóla Íslands og samþykkt einróma bæði af háskólaráði árið 2024 og í borgarráði í janúar 2025. Fyrirhuguð uppbygging að Birkimel 1 fellur vel að þessari þróunaráætlun til að mynda hringgarðinum.

Deiliskipulagstillaga sem nú er í auglýsingu varðar bæði borgarþróun og íbúðaruppbygginu á áberandi reit í rótgrónu hverfi og mikilvægt að vandað sé til verka. Aðstandendur verkefnisins tóku þess vegna saman allar helstu upplýsingar um verkefnið til þess að nágrannar og borgarbúar geti nálgast þær á einum stað.

Um Birkimel 1

Á lóðinni við Birkimel 1 í Vesturbænum, þar sem nú stendur bensínstöð, er fyrirhuguð uppbygging nýs fjölbýlishúss með allt að 42 íbúðum af mismunandi stærðum. Á jarðhæð verður þjónusturými sem snýr að Sögu og styður við lífið í götunni. 

Byggingin verður 4–5 hæðir með marghalla þökum sem brjóta upp bygginguna og stallast meðfram götumyndinni. Þakgarður og sameiginlegar svalir munu stuðla að heilbrigðu samfélagi meðal íbúa.

Í hönnun er lögð áhersla á fjölbreyttar tegundir íbúða í samræmi við skilyrði sem Reykjavíkurborg setur, meðal annars þau að að minnsta kosti fimmtungur íbúðanna eigi að vera fyrir námsmenn, leigjendur, eldri borgara eða búseturéttarhafa. Þá eru kvaðir af hálfu borgarinnar um að stærðir íbúða þurfi að vera mismunandi, en 35% íbúðanna mega vera af sömu gerð, hvort sem um ræðir stúdíóíbúðir, tveggja eða þriggja herbergja íbúðir eða þaðan af stærri. 

Markmið borgarinnar með þessum skilyrðum er að tryggja fjölbreytt og mannvænt hverfi þar sem ólíkir hópar geta búið í sátt og samlyndi. Húsnæðið er þannig sérstaklega hugsað fyrir fjölbreyttan hóp, þar á meðal námsmenn og eldri borgara, ekki síst í ljósi nálægðar við háskólann og þess að innan hverfisins má nú þegar finna alla helstu þjónustu.

Lóðin verður með 100 hjólastæðum og 6 bílastæðum í hálf niðurgröfnu bílskýli, þar með talið stæði fyrir hreyfihamlaða og deilibíl, enda í mikilli nálægð við borgarlínu og allar almenningssamgöngur og fjölda hjólastíga í allar í allar áttir. Við erum fullviss að það er hópur fólks sem tekur vel í slíkan lífsstíl enda stöðugt fleiri sem kjósa það að eiga ekki eigin bíl.

Hönnun hússins er í höndum Nordic Office of Architecture á Íslandi sem er mjög virk stofa með góðar tengingar við Norðurlönd og nýjustu strauma og stefnur. Hönnunin tekur mið af stefnumarkmiðum og gildum Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 um sjálfbærni, vistvæna samgögnukosti og fækkun bensínstöðvalóða í borgarlandinu sbr. kafla 19.6 sem lið í að byggja undir mannvænlegri borg.

Framkvæmdaraðilar

Reir Verk er dótturfélag Reir eignarhaldsfélags, sem fagnar 20 ára afmæli í ár, var stofnað árið 2005 af Hilmari Þór Kristinssyni og Rannveigu Eir Einarsdóttur. Á fyrstu árum félagsins voru grunnstoðir Reir ehf. endurbætur og nýbygging á fasteignum, aðallega í miðbæjarkjarna Reykjavíkur.

Síðustu ár hefur meginmarkið eignarhaldsfélagsins verið að þróa fasteignir og lóðir með sölu eða rekstur í huga. Reir Verk ehf. byggir á þeirri reynslu sem hefur skapast innan móðurfélagsins og er í dag öflugt byggingarfélag sem vinnur að fjölbreyttum fasteignaverkefnum. Fyrirtækið hefur á að skipa öflugum starfsmönnum, stjórnendum og tækjabúnaði og getur því tekist á við verkefni af hvaða stærðargráðu sem er.

Arkitektar

Nordic á Íslandi er ein öflugasta teiknistofa landsins og hluti af norrænu teiknistofunni Nordic Office of Architecture. Um er að ræða eina stærstu arkitektastofu á Norðurlöndunum. Nordic á Íslandi byggir á afar góðum grunni en hjá þeim starfar góður, reyndur og fjölbreyttur hópur skapandi fólks. Stofan byggir á norrænni hefð í hönnun og sinnir fjölbreyttum verkefnum, stórum og smáum. 

Nordic á Íslandi leggja áherslu á gæði, fagleg vinnubrögð, þjónustulund og góða samvinnu, en hjá þeim starfa um 50 sérfræðingar. Fjölmörg verkefni þeirra eru unnin í samstarfi við aðrar starfsstöðvar Nordic á Norðurlöndum.

Skýringarmyndir úr þróunaráætlun HÍ og myndir úr samgöngumati sem sýna Birkimel 1 í samhengi við sitt næsta umhverfi.

Edda

Ívarsdóttir

borgarhönnuður,

MSc Sustainable Urban Design

Borg sem svarar kalli tímans

Þegar bensínstöð víkur fyrir heimilum er það ekki aðeins tákn um breytingar,  heldur líka um nýja forgangsröðun. Á Birkimel í Vesturbænum stendur til að byggja íbúðir á lóð þar sem áður var bensínstöð. Þetta er skref í átt að mannvænni og sjálfbærari borg. Góðar borgir er þær sem þróast með tímanum og taka breytingum. Þær setja fólk í forgang og skapa umhverfi sem hvetur til virkrar þátttöku með góðum gönguleiðum, vistvænum samgöngum og fjölbreyttu mannlífi. 

Við lifum á tímum sem kalla á nýjar áherslur vegna loftslagsmála, nýrra ferðamáta og lífshátta. Þegar ný byggð er útfærð af virðingu við staðinn og fólkið sem þar býr, getur hún fært með sér aukin gæði fyrir öll, fleiri tækifæri fyrir fjölbreyttara mannlíf, vistvænni ferðamáta og  aukna þjónustu. Við verðum að gefa borginni tækifæri til að þróast, því borg í stöðnun mun ekki ná að uppfylla kröfur framtíðarinnar.

Kaupmannahöfn, sem nýverið var valin lífsgæðaborg heimsins lýsir árangri sínum með einföldum hætti: bílar víkja fyrir fólki. Sú hugsun á fullt erindi þegar byggt er í Reykjavík og annarsstaðar.

Íbúar í Vesturbænum búa í einu mannvænasta hverfi borgarinnar. Hér ganga og hjóla flestir til vinnu, skóla og daglegra erinda. Nálægð við þjónustu, menntastofnanir og miðborgina skapar aðstæður sem margir borgarhlutar gætu öfundað. Þéttari byggð á slíkum stöðum er ekki aðeins rökrétt – hún er ábyrg.  

Vesturbærinn er fjölbreyttur í byggð og formi – frá litlum fjölbýlishúsum, parhúsa, einbýla og blokkabyggðar. Þar eru líka byggingar með sterkan karakter, Háskólabíó, Neskirkja og Þjóðarbókhlaðan. Ný byggð á Birkimel fellur vel inn í þetta samhengi þar sem gætt er að hlutföllum, birtu, tengingu við göturými og gæðum jarðhæða. Uppbyggingin snýst um að bæta við og styrkja núverandi byggð. Þjónusta á jarðhæð glæðir göturýmið lífi og stutt er við vistvæna fararmáta.

Uppbyggingin á Birkimel er skref í átt að borg sem mætir þörfum nútímans, borg þar sem fólk hefur raunverulegt val um hvernig það ferðast og býr. Við þurfum að byggja í takt við samtímann, en jafnframt með skynsemi og virðingu fyrir því sem fyrir er. 

Markmið okkar er ekki aðeins að byggja hús, heldur að skapa heild : mannvæna og lifandi byggð þar sem fólk velur að dvelja og eiga heimili sitt.

Íbúðabygging í hjarta borgarinnar

Húsnæðisuppbygging á Birkimel er tilvalin fyrir þá sífellt fleiri sem kjósa að lifa vistvænum lífsstíl – aðeins steinsnar frá strætóleiðum, hjólastígum, háskólasvæðinu, fjölda vinnustaða og stutt í alla helstu þjónustu.

Samgöngumat sem framkvæmt var af verkfræðistofunni Eflu í skipulagsferlinu á lóð Birkimel 1 sýnir fram á hversu greiðlega má komast um svæðið og í allar áttir án bíls.

Heildarniðurstaða samgöngumatsins er sú að um sé að ræða vel heppnaða þróun sem svarar kalli tímans, á reit sem er bæði miðsvæðis og tengdur grænum samgöngumátum.

Samgöngumat og umhverfisgreiningar leiða í ljós að umrædd þróun mun ekki leiða til aukinnar umferðar eða hávaða, heldur styðja við vistvænan lífsstíl, betri nýtingu lands og betri borgarmynd.

Skýringarmynd úr þróunaráætlun HÍ sýnir hringgarðinn og samþættingu háskólasamfélagsins við vesturbæinn og aðliggjandi borgarbyggð.

Stefna borgarinnar um fækkun bensínstöðva

Stefna Reykjavíkurborgar er að fækka bensínstöðvum í þéttbýli, sérstaklega í íbúðarhverfum og miðborginni. Markmiðið er að nýta landið betur, bæta borgarumhverfið og stuðla að sjálfbærari samgöngum. 

Bensínstöðvar sem áður voru í miðjum hverfum víkja nú fyrir nýju íbúðahúsnæði og þjónustu – og starfsemi þeirra flyst nær stofnbrautum þar sem þær valda minni áhrifum á daglegt líf íbúa í grenndinni.

Samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Birkimelur 1 í Reykjavík var undirritað 25. júní 2021 ásamt því að borgin gerði samning við öll helstu olíufélög um að fækka stöðvunum verulega. Samhliða því eru lóðir hreinsaðar og undirbúnar fyrir nýja uppbyggingu, með íbúðum fyrir fjölbreyttan hóp fólks, til dæmis námsmenn, eldri borgara og fólk á leigumarkaði.

Þessi áætlun er að öllu leiti í samræmi við gildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og styður við loftslagsmarkmið borgarinnar og áherslu á vistvænan samgöngumáta – eins og göngu, hjól og almenningssamgöngur – sem og heilsusamlegra og mannvænna borgarumhverfi.

Tímalína

Um þriggja ára vinna liggur að baki þróun og hönnunar á Birkimelsreitnum.

Hér að neðan er stiklað á stóru.

2022
  • Nordic byrjar á frumathugunum vegna Birkimels 1.
2023
  • Tillögur Nordic farnar að taka á sig mynd.
  • Máta við ramma sem Stika arkitektar unnu – nýtt þakform (ekki flöt þök) – einblína á bensínstöðvarlóð.
  • Fáum minnisblað frá Reykjavíkurborg um almenn ákvæði og gátlista tengdum bensínstöðvalóðum sem undir eru í samningum milli lóðarhafa og borgarinnar.
  • Nordic senda samantekt á Reykjavíkurborg um hvernig ákveðin atriði á gátlista verði leyst.
2024
  • Nordic senda Reykjavíkurborg uppfærða tillögu eftir ábendingar þeirra.
  • Máta við ramma sem Stika arkitektar gerðu – nýtt þakform (ekki flöt þök) – einblína á bensínstöðvarlóð.
  • Jákvætt tekið í tillögurnar – beðnir um að skila inn formlegri fyrirspurn svo hægt sé að taka fyrir á afgreiðslufundi.
  • Fyrirspurn til skipulagsfulltrúa send – ósk um breytingu á deiliskipulagi.
  • Umsögn skipulagsfulltrúa berst – jákvætt tekið í að lóðarhafi vinni frekari útfærslu deiliskipulagsbreytingarinnar en taki mið af umsögn.
  • Reykjavíkurborg óskar eftir að við þróum hönnun byggingarinnar með tilliti til gæða íbúða með skematískum hætti, samhliða gerð deiliskipulags.
  • Sérfræðingur í gerð samgöngumats fengin til þess að skoða forsendur samgöngumats.
  • Nordic senda ýtarlegri tillögur til Reykjavíkurborgar sem innihalda skuggavörp, útlitspælingar, sneiðingar sem sýna hæðarsetningu í samhengi við nærliggjandi hús sem og skematískar hugmyndir af íbúðum.
  • Húsið lækkað um eina hæð að ósk Reykjavíkurborgar til að minnka áhrif skuggavarps á nærliggjandi byggð.
  • Frekari hönnun í vinnslu – skoðum aðra þætti eins og dvalarsvæði innan lóðar, samgöngumat o.fl.
  • Uppbyggingarverkefnið kynnt fyrir formanni og sviðstjóra skipulagssviðs Reykjavíkurborgar – fáum þau svör um að næstu skref séu að fullgera deiliskipulagið.
  • Lokavinnsla á deiliskipulagi.
  • Formleg umsókn um breytingu á deiliskipulagi send til Reykjavíkurborgar.
  • Samgöngumat o.fl. þættir deiliskipulags í rýni hjá mismunandi aðilum innan Reykjavíkurborgar.
2025
  • Frekari vinnsla á lausn bílastæðamála í samvinnu við skrifstofu samgöngustjóra Reykjavíkurborgar.
  • Nordic sendir uppfært deiliskipulag á Reykjavíkurborg þar sem gert er ráð fyrir bílakjallara til að leysa bílastæði fyrir hreyfihamlaða.
  • Fáum samþykki á útfærslu bílastæðamála/bílakjallara.
  • Deiliskipulagstillagan kynnt formlega í umhverfis- og skipulagsráði.
  • Deiliskipulagstillagan samþykkt til auglýsingar í umhverfis- og skipulagsráði og vísað til samþykktar í borgarráði.
  • Deiliskipulagstillagan tekin fyrir hjá borgarráði og samþykkt til auglýsingar.
  • Deiliskipulagstillagan sett í formlega auglýsingu – 22. maí til 22. júlí
  • Auglýsingatími deiliskipulags framlengdur til 2. september

Samstarf borgarinnar og Háskóla Íslands

Þróunaráætlun Háskóla Íslands fyrir háskólasvæðið í Vatnsmýri var samþykkt einróma af háskólaráði þann 8. febrúar 2024. Hún er afrakstur náins samstarfs milli Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að samræma uppbyggingu svæðisins við framtíðarsýn borgarinnar um þétta, sjálfbæra og mannvæna byggð.

Markmið áætlunarinnar var að háskólasamfélagið og Reykjavíkurborg myndu móta sameiginlega framtíðarsýn. Þannig unnu borgin og Háskóli Íslands saman að því að samræma byggðaþróun, samgöngur og græn svæði á svæðinu. 

Með sameiginlegri stefnu er tryggt að þróunin styðji við bæði þarfir háskólans og markmið borgarinnar um þétta, vistvæna og aðgengilega borg. 

Í stað einkabíls yrði áhersla lögð á gangandi, hjólandi og vistvæna samgöngumáta eins og Borgarlínu – og tengsl svæðisins við borgarvefinn efld.

Þróunaráætlunin gerir ráð fyrir uppbyggingu á fjölbreyttu húsnæði fyrir nemendur, starfsfólk og samstarfsaðila. Almenningsrými verða tengd inn í borgarlandslagið með grænum svæðum, opnum rýmum og þjónustu á jarðhæðum sem stuðlar að mannlífi, öryggi og félagslegum tengslum.